Skip to content

Einn stærsti rappari Bretlands treður upp á Októberfest

ágúst 11, 2025

Októberfest SHÍ, stærsta tónlistarhátíð á meginlandi Íslands, er rétt handan við hornið og tilhlökkunin er að ná nýjum hæðum! Hátíðin, sem er hornsteinn í skemmtanalífi stúdenta, fer fram á glæsilegu hátíðarsvæði fyrir framan Háskóla Íslands dagana 4.–6. september 2025. Með blöndu af mögnuðum tónlistarupplifunum, líflegri stemningu og einstöku andrúmslofti lofar Októberfest SHÍ að verða ógleymanleg upplifun fyrir alla gesti.

Við erum himinlifandi að tilkynna að breski rapparinn og grime-goðsögnin Dizzee Rascal mun stíga á svið á Októberfest SHÍ í ár! Dizzee, sem er þekktur fyrir að gjörbylta breskri tónlistarsenu með plötum eins og Boy in da Corner og smellum á borð við „Bonkers“, „Dance wiv Me“ og „Holiday“. Dizzee er einn af stærstu rappörum sögunnar og mun án efa setja svip sinn á hátíðina og kveikja í dansgólfinu.

Októberfest SHÍ er þekkt fyrir að bjóða upp á fjölbreytta dagskrá sem sameinar bæði staðbundna og erlenda listamenn, og þótt full dagskrá hátíðarinnar hafi enn ekki verið birt er ljóst að Dizzee Rascal er aðeins toppurinn á ísjakanum. Forsala miða seldist upp á methraða, en almenn miðasala er nú hafin á oktoberfestshi.is. Við hvetjum alla stúdenta og tónlistarunnendur til þess að tryggja sér miða sem fyrst, því þessi hátíð verður einn af hápunktum ársins!